26.3.2015 | 00:55
Héðinn Unnsteinsson er maður dagsins.
Það er ekki á hverjum degi sem maður situr límdur við sjónvarpið frá og með fréttum og til klukkan ellefu. En í kvöld, miðvikudaginn 25. mars, var veisluborð hlaðið krásum og meira en það; þær voru allar íslenskar! Fyrst áhrifamikið Kastljós sem ég kem síðar að. Þá tók við skólahreysti, alveg frábært sjónvarpsefni og Boxið í sama anda þar sem unga fólkið á svo sannarlega sviðið, síðan Kiljan góð að vanda og eftir tíufréttir tók við hestaþáttur fjölmiðlastjörnunnar Huldu G. Geirsdóttur sem kann svo vel að gera hestamennskunni góð skil.
En hápunktur kvöldsins var einlæg frásögn Héðins Unnsteinssonar af glímu sinni við geðhvörf og ennþá erfiðari glímu við heilbrigðiskerfið og lyfjamafíuna. Ég hef fylgst með Héðni frá því að ég kenndi þessum góða dreng í menntaskóla og síðan úr fjarlægð og einstöku sinnum hitt hann á förnum vegi. Hann hefur verið einstakur baráttumaður fyrir betri heilbrigðisþjónustu fyrir geðsjúka og fór m.a. í framhaldsskóla landsins í þeim tilgangi að draga leyndarhjúpinn og skömmina af þessum sjúkdómi sem allt of lengi hefur viðgengist í samfélaginu. Hann hefur unnið hjá heilbrigðisráðuneyti og nú hjá forsætisráðuneyti. Hann vann um tíma hjá alþjóða heilbrigðisstofnuninni WHO en hætti þar af því honum ofbauð máttur kapítalsins.
Sýn hans á tilgang kerfa sem eiga að takast á við skilgreind vandamál/verkefni svo sem heilbrigðiskerfisins er einkar sannfærandi: "Kerfið þarf að þjóna skjólstæðingum sínum og hafa það að markmiði að eyða sjálfu sér" þ.e. þjóna svo vel að ekki verður þörf fyrir það.
Upp úr standa lokaorð hans í Kastljósþættinum: "Það eru ofboðslegir hagsmunir fólgnir í því að halda fólki skuldugu, veiku og fátæku!
Þennan mann þarf að virkja til góðra verka.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.