3.3.2015 | 18:39
Bóndi er bústólpi - bú er landstólpi
Það var gaman að vera við setningu Búnaðarþings sl. sunnudag. Þar fór saman góð blanda innihaldsríkra ávarpa og söngs undir öruggri stjórn Brynju og Braga Orðbragðarefa. Sindri formaður fer afskaplega vel af stað með því að færa setningu þingsins í hið nýja hjarta Reykjavíkur og landsins alls, Hörpu. Með því hefur honum tekist að vekja athygli á landbúnaði og störfum bænda langt umfram það sem áður var. Öll umgjörð setningarinnar bar vitni mikils metnaðar og fullvissu um að hér var um merkisviðburð að ræða. Það er líka vert að geta þess hve bændastéttin hefur verið lánssöm með val á formönnum. Þeir hafa verið hver öðrum frambærilegri svo maður telji t.d. aðeins upp alla þá sem gegnt hafa embættinu frá því Búnaðarfélag Íslands og Stéttasamband bænda sameinuðust. Jón Helgason í Seglbúðum, Haukur Halldórsson í Sveinbjarnargerði, Ari Teitsson í Brún, Haraldur Benediktsson á Vestri-Reyni og Sindri Sigurgeirsson í Bakkakoti. Ræða Sindra var málefnaleg og beinskeytt. Hann lagði áherslu á bjarta framtíð greinarinnar og gríðarleg tækifæri í bráð og lengd. Þá svaraði hann myndarlega árásum og niðurrifshjali talsmanna Samtaka verslunar og þjónustu og Félags atvinnurekenda sem ekki geta skilið að tollvernd er nauðsynlegri íslenskum landbúnaði þar sem innflutt matvæli eru 50% neyslunnar samanborið við 10% í ESB. Landbúnaðarráðherra veitti landbúnaðarverðlaunin kúabúinu á Búrfelli í Vatnsdal A-Hún. og kúa- og ferðaþjónustubúinu í Efstadal 2 í Laugardal. Í ræðu sinni daginn eftir sendi hann bændum sterk skilaboð um að áherslur muni breytast í tillögum ráðherra að nýjum búvörusamningi. Þar vill hann koma samningum garðyrkju-, sauðfjár- og kúabænda inn í einn rammasamning og færa beingreiðslur að hluta til frá framleiðslumagni til gripa og ræktunar. Auk þess lagði hann áherslu á að lengja samningtímann, helst upp í 10-15 ár. Með því móti gætu bændur skipulagt fjárfestingar sínar og framleiðslu og tekið lán til langs tíma í ásættanlegu umhverfi. Allt þetta virðist horfa til bóta fyrir þennan undirstöðu atvinnuveg og því var ömurlegt að heyra í Helga Hjörvar á Alþingi í dag þar sem hann taldi að ekki mætti semja til lengri tíma en sem svarar einu kjörtímabili svo hans líkar, ef kæmust til valda á ný, gætu sett sig í spor nautsins í flaginu eða fílsins í glervörubúðinni og rústað þessari mikilvægu atvinnugrein. Ekki man ég betur en að í þreifingum á þingi um sáttatillögur í sjávarútvegi séu menn að tala um 15-20 ára veiðiréttindi. Úrtölumenn eins og Helgi Hjörvar eiga vonandi ekki upp á pallborðið hjá alþýðu þessa lands. Það er bjart yfir íslenskum landbúnaði og bændastéttinni og það er vel.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.