2.3.2015 | 00:21
Strætó-Reynslusaga
Stöku sinnum tek ég strætó úr uppsveitum Kópavogs og niður í bæ. Það er sjaldnast fréttaefni nema þá til að slá sér upp í umhverfisbransanum. Í dag fannst mér upplagt að skeiða með strætó niður í Hörpu til að heiðra bændur við setningu búnaðarþings og upplifa Fæðu og Fjör sem er skemmtileg uppákoma. Strætó á leið 28 var tímanlega við Breiðahvarf kl 11:09 og ekki þurfti að kvarta undan þrengslunum. Ég hafði hann bara fyrir mig alla leið niður í Mjódd, enginn annar þurfti að nota þennan strætó og því gekk ferðin greiðlega og ég mættur á skiptistöð 11:15. Þar ætlaði ég að kaupa mér 10 miða kort í afgreiðslunni en nei takk, á sunnudögum er húsið ekki opnað fyrr en kl 12:30. Og þetta er önnur mesta skiptistöð borgarinnar á eftir Hlemmi. Merkileg uppgötvun í ljósi þeirra áherslna sem meirihluti borgarstjórnar hefur á almenningssamgöngum. Þarna hafa sem sagt farþegar þurft að híma utandyra í "blíðunni" frá áramótum allt upp í 5-6 mínútur. Og enginn virðist kvarta, ekki sést það í fjölmiðlum. Manni dettur helst í hug að farþegar taki bara Íslendinginn á þetta, bíti á jaxlinn og bölvi í hljóði. Finnist ef til vill ekki rétt að trufla strætó við að ná upp um sig við að þjóna þeim fötluðu eins og þeir eiga skilið. Niður í bæ komst ég ókalinn, þökk sé blíðu dagsins, en þegar heim var haldið kárnaði gamanið á ný. Þegar út af hitahlöðum Hörpu kom var bara eitt glærusvell á gangstígum við Geirsgötu og svo meðfram Kalkofnsvegi alla leið á stoppistöð á Lækjartorgi. Aðeins komu auðir kaflar þar sem bílum var ætlað út af bílastæðum og svo á gangbrautum. Leið 3 var orðin 5 mín. of sein á Lækjartorgi, rétt nýlögð af stað frá tímajöfnun á Hlemmi. Þegar ég hafði orð á því við bílstjórann sagðist hann hafa verið að taka við vagninum á Hlemmi og hann hefði verið orðinn svona seinn að tímajöfnun dugði ekki til, já á sunnudegi, hugsa sér. Það fór náttúrulega þannig að þrátt fyrir greinilegan vilja bílstjórans að vinna upp seinkunina og að ég tæki á sprett til að ná leið 28 í Mjoddinni þá sá ég á eftir honum síga af stað svona 50 metrum á undan mér og ekki sá hann til mín þrátt fyrir góða tilburði mína. Þetta mundi kosta hálftíma bið og mér var ekki skemmt. En bíðið við! enn er til ungt og umhyggjusamt fólk í henni veröld. Tvær ungar stúlkur voru að aka vini sínum í Herjólfsrútuna og sáu ófarir mínar, vinda upp hurð og bjóða mér far. Ekkert spurt um hve langt, bara gæskan. Þær voru hafnfirskar og báðar í MS. Þetta gladdi gamlan skólameistara ósegjanlega og jók enn trú mína á ungu kynslóðinni.
En borgaryfirvöld þurfa að taka til í sínum ranni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.